Geðhjálp á Norðurlandi Eystra

Ég fór á stofnfund Geðhjálpar á Norðurlandi eystra í gærkvöldi. Geðhjálp var sem sagt að opna deild í þessum landshluta, sem er sjöunda deildin á landinu.

Ég hef mikinn áhuga á því sem viðkemur geðheilsu. Ég hef reynslu af kvíðaröskun, fæðingarþunglyndi, átröskun og félagsfælni. Mig hefur langað að svipta mig lífi. Ég fékk hjálp og hún skiptir svo miklu máli. Ég hef heldur ekkert verið að fela minn sjúkdóm. Ég hef mætt fordómum í þjóðfélaginu og vil því gefa þessum sjúkdómi andlit. Ég hef geðröskun og ég hef farið í meðferð hjá sálfræðingi og hjá Dagdeild Geðdeildar FSA á Akureyri. Þetta hefur hjálpað mér gríðarlega mikið. Ég hef lært að ég er mikilvægur einstaklingur. Ég hef lært að ég má hafa eigin skoðanir og viðra þær. Þegar ég byrjaði á Dagdeild var ég dugleg við að afsaka sjálfa mig ef ég vogaði mér að segja mína skoðun á málinu. Ég hef lært að ég á fjölskyldu sem þykir vænt um mig og ég á að leita til þeirra þegar og ef mér líður illa. En ég á líka að tala við hana ef mér líður vel og gengur vel.

Það er svo gott að fara á svona fund og rifja upp hvað ég hef lært. Ég á nú líka fullt af efni sem ég get lesið um jákvæðni og von og fengið vísbendingar um hvernig á að lifa lífinu. Ég fór samt á fundinn því ég finn að það eflir mig að hitta starfsmenn geðhjálpar og ég hitti líka Kristján forstöðumann Dagdeildar, ég hitti geðsjúka og gamla notendur af Dagdeild. Þetta skiptir svo miklu máli. Ég get gefið þeim von og öfugt. Ég get jafnvel hjálpað einhverjum sem er að lesa þetta núna og sagt að mér hefur líka liðið svona illa, en, ég er mun betri í dag og lifi í jákvæðni. Ég lifi í Núinu. Ég þarf líka að hafa fyrir því. Þetta er mikil vinna á hverjum degi. Maður er svo fljótur að detta niður í neikvæðni, en ég er sterk og næ að hrinda þeim hugsunum í burtu. Stundum þarf ég aðstoð til þess, og leita þá til eiginmanns míns og móður minnar. Ég á líka fáar en góðar vinkonur sem eru alltaf tilbúnar til að spjalla. Ég eignaðist einmitt góða vinkonu á Dagdeild og við höldum sambandi. Sem betur fer. Hún hefur reynst mér ofboðslega vel og færi ég henni þakkir fyrir.

Ég lifi á Núinu. Ég kvíði fyrir breytingum en ég hef þann hæfileika að geta skrifað og ég skrifa mig oft út úr erfiðleikunum. Núna er ég í atvinnuleit og ég þarf langan tíma til að fara á næsta vinnustað til að sækja um. Ég veit að á meðan ég er að hafa mig af stað er einhver á undan mér á staðinn til að fá vinnuna. En þetta er barátta og ég veit að ég kemst í gegnum það. Ég held jafnvægi með því að hafa alltaf morgunverkin á hreinu, eins og að draga frá gluggum og búa um rúmið. Ég skúra tvisvar í viku, skipti íbúðinni í tvennt og þríf til dæmis allt parket á föstudögum sem er ca helmingurinn af íbúðinni. Þetta er föst rútína og það er það sem maður þarf. Ég fer líka í sund á þriðjudögum og fimmtudögum. Ég fer í búð á fimmtudögum og mánudögum. Ég fer alltaf á Punktinn á mánudögum eftir hádegi og sauma út.

Sjúkdómurinn virkar ekki þannig að maður fer í meðferð hjá sálfræðingi og svo er manni batnað. Sjúkdómurinn virkar þannig að ég fer í meðferð til að læra að standa á eigin fótum og svo tekur við vinna hjá sjálfri mér. Ég þarf að halda rútínu á hlutunum til að halda jafnvægi. Ég finn að þegar eitthvað bregður út af með svefn verð ég ómöguleg. Ég held betra jafnvægi með því að sofa reglulega. Ég tek lyf. Ég hef tekið lyf síðan ég greindist í nóvember 2006. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég hætti að taka lyf. Þau halda niðri einkennunum. Útivist skiptir miklu máli. Ég finn hvað mér líður vel þegar ég fer út að ganga eða leika með dóttur minni. Að fá ferskt loft og njóta umhverfisins, skoða fjöllin og himininn. Sjá hvað aðrir eru að gera, skoða flottu bílana eða flottu fötin sem fólkið er í eða bara að njóta augnabliksins. Skoða fegurðina í kringum sig. Hreyfing skiptir líka miklu máli.

Það er hreyfing og mataræði sem skiptir svo miklu máli og það er eitthvað sem vantar svolítið uppá hjá mér. Ég hreyfi mig af og til en átröskunin er enn til staðar og ég hef aldrei verið jafn þung og ég er núna.

En nóg í bili af þessu. Ég vildi vekja athygli á Geðhjálp og gefa sjúkdómnum andlit.

Það er hjálp við þessu og það er von. Ég vil gefa öðrum von. Ég trúi á von.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband