Hugleiðingar um vinnu....

Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað ég ætla að gera í sambandi við vinnu. Ég er menntaður viðskiptafræðingur og þá myndi einhver segja mér að vinna við bókhald, vinna í banka eða eitthvað þessu tengt. Ég hef unnið í banka og vann í sama bankanum í tíu ár með skólanum. Þegar ég útskrifaðist kom í ljós að það var bara ekki lengur pláss fyrir mig þar og því var mér sagt upp. Ég hef reynt tvisvar að komast í vinnu þar eftir þetta, en bankinn breyttist í Kaupþing og við það komu inn nýir stjórnendur sem þekkja mig ekki neitt og ég hef ekki fengið vinnu þar eftir það. En svona er nú bara lífið.

Ég var líka að vinna í Hagkaup og líkaði það mjög vel. Ég vann reyndar myrkranna á milli þar til ég varð ófrísk. Eftir fæðingarorlof vil ég ekki vinna um helgar og helst bara til fjögur á daginn því bæði dagmömmur og leikskólar bjóða ekki lengri þjónustu en 8-5, enda er það alveg meira en nóg fyrir blessuð börnin. Nú! Ég hætti því alveg í Hagkaup, enda launin ekki góð fyrir viðskiptafræðing og menntun mín nýttist ekki sem skyldi. 

Ég vann í bókhaldi í rúmt ár og fannst gaman að bóka debet og kredit, EN mér fannst enn skemmtilegra að stemma af og ganga frá uppgjöri til endurskoðanda. En ég vil meira en bara bókhald, ég vil þurfa að snúast aðeins fyrir fyrirtækið út í bæ og senda fólki reikninga og rukka. Hafa samskipti við fólkið. 

Ég sótti um skrifstofustarf í fyrra og hefði getað fengið það, en ég lét drauminn minn um að vinna í verslun rætast í það skipti. Það fór aftur á móti á verri veg, en það er önnur saga.
Þetta skrifstofustarf bauð upp á launaútreikninga, skráningar í excel, hlaup út í bæ og samskipti við fólk. Ég sé eftir því að hafa ekki þegið það starf því að ég hætti í versluninni sökum álags og lélegs vinnuanda, og líka að ég vildi ekki fórna sumarfríinu með eiginmanninum og dótturinni og það hentaði ekki í fyrra, en núna er ég sáttari við það, vil öðlast þessa reynslu og geta skráð hana í starfsferilinn minn og þó að ég þurfi að vinna 8-4 en ekki 8-2 þá held ég að þessi sumarvinna henti mér bara mjög vel. Synd að hafa ekki möguleika á framtíðarstarfi.

Ég er líka til í að vinna úti í sumar. Þess vegna sótti ég bæði um sumarstarf í lystigarðinum og sem flokkstjóri eða leiðbeinandi í unglingavinnunni. Ég hef gríðarlega gaman af náttúrunni og að rækta blóm. Ég hef mínar efasemdir um eigin getu varðandi það að stjórna unglingum í unglingavinnunni, en tel mig samt vera það sterka að hafa það af. Ég held að það verði góð reynsla. 

En hvað svo?

Hvað gerist þegar þessu sumri lýkur???

Þá kem ég aftur að þessari gríðarlega stóru spurningu sem hefur angrað mig í þrjú ár, við hvað vil ég vinna??? 

Draumurinn hefur alltaf verið að vinna í verslun innan um fólk og hitta fólk og sinna því og spjalla við það því ég hef ríka þjónustulund. EN, eftir að hafa greinst með fæðingarþunglyndi og kvíðaröskun finn ég að það er ekki rétti staðurinn fyrir mig. Það er ekki gott að vinna í verslun og vera hræddur við kúnnana. Það er heldur ekki sniðugt að þurfa að vinna 10-6 og aðra hvora helgi þegar ég á dóttur sem þarfnast móður sinnar á kvöldin og um helgar. 

Ráðgjafinn minn hjá BYR stakk því að mér að nýta mér mína þekkingu og reynslu varðandi aðhald og kvíða. Ég hef tekið af mér 27 kíló á sex mánuðum, fyrir óléttuna nota bene, og leið frábærlega vel. Þá fékk ég þá flugu í höfuðið að gerast einkaþjálfari. 

Ég gæti alveg hugsað mér að gerast félagsráðgjafi og hjálpa fólki sem á við félagsfælni, kvíða og streitu að stríða eins og ég og að hjálpa því að ná þeim árangri sem ég hef náð. 

Ég er viðskiptamenntuð og get miðlað því. Ég get kennt stærðfræði, ensku, íslensku eða bókfærslu til dæmis. Ráðgjafinn minn lét mig taka áhugasviðspróf og ég fæ út úr því næsta mánudag. 

En núna hef ég valkvíða, hvað á ég að gera? Við hvað á ég að vinna? Hvað á ég að gera við líf mitt???

Þegar stórt er spurt er fátt um svör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband