Þetta kemur mér ekki við
4.4.2008 | 13:54
Ég var stödd í Apótekinu í Hagkaup í gærmorgun til að ná í lyf og á meðan ég bíð eftir því að þau eru tekin til heyri ég í starfsfólkinu kvarta undan því laununum sínum. Það heyrðist einna hæst í einni konunni sem hábölvaði og lét öllum illum látum. Hún fór afsíðis en það heyrðist samt í henni. Þegar önnur kona kom fram með lyfin mín og afgreiddi mig var hún svo utan við sig að hún þurfti að margspyrja mig hvort mig vantaði eitthvað fleira, en mig vantaði einmitt verkjatöflur og stíla og hún var heillengi að afgreiða mig því að hún ruglaðist alltaf. Það endaði með því að hún sussaði á hina konuna sem var ennþá að rífast og skammast yfir laununum sínum. Um leið og hún tók við greiðslu frá mér stökk hún sjálf afsíðis til hinnar konunnar og slóst í leikinn.
Þetta kom mér ekkert við en truflaði svo sannarlega konuna sem var að afgreiða mig. Fólk sem er í þjónustustörfum verður að passa upp á að svona uppákomur komi ekki aftur fyrir þegar það eru viðskiptavinir í búðinni eða apótekinu.
Annars verslaði ég líka í Hagkaup og þegar ég kom að kassa var einn kassi opinn og einn viðskiptavinur að bíða þar, en hin kassadaman var að fletta í gegnum blað, leit upp og sá mig og hélt áfram að skoða blaðið. Þetta á ekki að eiga sér stað, og það á ég að vita sem gamall starfsmaður þarna.
Ég fór í sund í Akureyrarlaug í eftir hádegið í gær og þegar ég kom uppúr fór ég í sturtu og þegar ég var búin í sturtunni fór ég og klæddi mig. Á meðan á því stóð kom annar starfsmaðurinn í kvennaklefanum inn og gargaði á hina að nú væri hún búin að hlaupa um allt, upp og niður og út og suður. Svo settust þær niður og fóru að tala um aukið álag og að yfirmaður þeirra gerði sér ekki grein fyrir álaginu sem væri á þeim og svo framvegis. Þetta heyrðist um allan búningsklefann. Svo þurfti ég að þrífa húðina mína og vaskurinn inni hjá þeim og þetta er vaskur sem allir mega nota. Ég gekk til þeirra og spurði hvort það væri í lagi að nota vaskinn og það var sko guðvelkomið. Nema hvað, á meðan ég var að þrífa andlitið tek ég eftir því að þær hætta að tala saman. Ég fann að ég var að trufla þær. Önnur þeirra stóð meira að segja upp og sagði mér að ég gæti málað mig fyrir framan spegilinn frammi og mér fannst hún vera að segja mér að koma mér í burtu. Ég sagðist bara vera að hreinsa húðina og að ég vissi að ég ætti að mála mig annars staðar. Ég var greinilega að trufla þær og finnst ósanngjarnt að ég ætti að þurfa að bíða frammi á meðan þær kláruðu að kvarta undan sínu vinnuumhverfi. Ég fór inn því það er minn réttur og ég notaði vaskinn að vild. Enda er það alveg guðvelkomið. Nema þegar starfsfólkið þarf að slúðra!
Elsku kæra starfsfólk, ekki láta það bitna á viðskiptavinunum ykkar þó að þið séuð ekki ánægð í vinnunni. Það kemur mér ekki við þó að launin hafi verið vitlaust reiknuð eða að það sé mikið álag í vinnunni. Ég vil kaupa af ykkur þjónustu og þið eruð til staðar fyrir mig en ekki öfugt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.