Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Við verðum í topp fimm

Ég var ekki sannspá fyrir seinni riðilinn og var að velta fyrir mér hvort ég hefði verið að horfa á eitthvað annað en hinir....

Ég veit að við lendum í topp fimm og með okkur verða Grikkland, Noregur og Rússland. Að mínu mati verða Rúmenía, Albanía, Armenía, Ísrael, Portúgal, Serbar og Lettland í topp tíu.

Grikkland er með hrikalega gott lag en hún var ekki alveg nógu sterk á sviðinu í gærkvöldi. Norska söngkonan er mjög örugg og svakalega flott og með góðan texta. Rússinn er bara flottur, sætur strákur sem syngur mjög vel en mér fannst skautadansarinn ekki eiga heima þarna. Mér finnst þeir reyna of mikið og það fellir þá. En söngvarinn er æðislegur. Rúmenía er með fallega ballöðu og það skín af þeim ástríðan. Mér fannst lagið frá Albaníu ekkert sérstakt þangað til ég sá hana flytja það á sviðinu í gærkvöldi. Þar er svakalega góð söngkona á ferð. Qele, Qele frá Armeníu er mjög gott lag og vel sungið og flott. Jafnvel sigurlag ef marka má það sem Sigmar sagði í sjónvarpinu. Ísrael sendir sætan strák að syngja fallegt lag. Mér finnst þó Rússinn flottari. Portúgalska söngkonan er stór og hún er með stórt og mikilfenglegt lag. Hún verður ofarlega. Serbar eru með mjög gott lag og væru vísir til að vinna aftur. Geðveikur kjóllinn sem hún er í í myndbandinu. Lettar eru með hresst og skemmtilegt lag og skemmtilega sviðsframkomu og lenda ofarlega.

Áfram Ísland. Þau geta alveg unnið þetta, gott lag og góðir söngvarar. Frábær myndvinnsla í gærkvöldi og ég hafði mjög gaman af þeim. Salurinn var líka alveg með þeim. Mjög gott mál. Þau geta unnið þetta en mér finnst það of gott til að vera satt. Svo er annað, ef við vinnum, fer þá litla Ísland á hausinn við að halda þetta að ári? Áfram Eurobandið. Þið getið þetta. Ég sendi ykkur strauma. Þið eruð frábær!

Við vinnum! Við getum unnið! Áfram Ísland!

 


Við komumst áfram!

Ég er sannfærð um það að Ísland kemst áfram í kvöld. Ef Eurobandið kemst ekki áfram er mikið í gangi því að þau lifa fyrir þetta og það skín af þeim öryggið og þau eru vel undirbúin. Þeim hlakkar líka sjálfum svo til að ég veit að þau brillera algjörlega.

Annars var ég sannspá með fyrri riðilinn þar sem Grikkland, Rússland, Ísrael, Noregur og Armenía komust áfram. Ég vildi líka fá Slóveníu, Belgíu, Pólland og Andorru áfram en Pólland var eina landið af þeim sem komst áfram. Þegar Finnland kom á sviðið áttaði ég mig á því að þeir voru með allt öðruvísi lag en hinir og það komst áfram. En Aserbajdan finnst mér ekkert sérstakt og Bosníu lagið algjör brandari. 

Í kvöld er stóra stundin runnin upp. Íslendingar komast áfram, ég hef enga trú á öðru. Að mínu mati komast svo Sviss, Búlgaría, Lettland og Macedonia áfram. Þetta er topp fimm að mínu mati. Þar fyrir utan gæti ég trúað að Ungverjaland, Svíþjóð, Tékkland, Malta og Kýpur komist áfram.

Góða skemmtun í kvöld og ÁFRAM ÍSLAND!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Togga.  


Eurovision í kvöld

Ég mæli með Eurovision í kvöld. Það eru nokkur hörkugóð lög í kvöld og ég hef trú á því að þar sé vinningslagið á ferð. Ég vil ekki gera lítið úr Regínu og Friðrik, en ég sé ekki fyrir mér að Ísland vinni. Það er einhvern veginn svo óraunverulegt að okkar litla land vinni keppnina. Þau lenda í topp 5, en ég er ekki viss um að þau vinni. Ég yrði að sjálfsögðu ánægðust með okkar sigur, en mér finnst það svo óraunverulegt.

Topp fimm í kvöld eru að mínu mati Grikkland, Rússland, Noregur, Armenía og Ísrael. Það eru mörg rosalega góð lög en þetta er topp fimm. Ég vona að Írland nái ekki að komast upp úr riðlinum með syngjandi kalkún en margt skrítið hefur gerst. Svo eru Eistarnir með grín líka, tveir eldri karlmenn í gulum og bláum jakkafötum að syngja eitthvað grín.

Góða skemmtun í kvöld. Ég veit að ég skemmti mér vel og ekki trufla mig á meðan!


Beðið eftir vörunum

Nú er bara beðið. Ég hef verið heima i þrjá daga því að okkur vantar gám fullan af vörum til að raða í hillurnar í búðinni á Glerártorgi. Mjög svekkjandi því að búðin er til og það vantar bara vörurnar. Ég hef ekki gert neitt í þrjá daga, en ætla að vera aðeins duglegri í dag.

Ég var að lesa bloggin á Hæðinni. Minn smekkur fellur best að Elísabetu og Hreiðari. Mér finnst  þau vinna vel saman og ég er hrifnust af þeirra smekk. Mér finnst þau hafa hlýlegasta smekkinn. Ég er að sjálfsögðu að tala um Hæðina á Stöð 2. Ég tók eftir því að þau fá fæst komment á sína síðu. Beggi og Pacas fá flest kommentin og Steinunn og Brynjar þar á eftir. Beggi og Pacas eru svo væmnir! Ég var komin með æluna upp í háls. Ég er ekki að fíla þeirra smekk, mér finnst þeir vera með of mikið af svörtu og hvítu og þessar spaghettí gardínur fara þvílíkt í taugarnar á mér. Þetta er tískan í dag og hana ber að sýna. Ég vil bara gamaldags gardínuvængi, helst þykka því ég er spéhrædd og vil ekki að nágrannar mínir séu að horfa mikið inn um gluggana hjá mér. Mér finnst sjónvarpsrýmið svo kuldalegt hjá Brynjari og Steinunni. Ég vil hafa kósí hornsófa með lasy boy þannig að ég geti legið undir teppi og horft á góða bíómynd á VOD-inu. Með popp og kók að sjálfsögðu. Mér fannst samt þetta rými ekki heillandi hjá Begga og Pacas, þó þeir væru með popp og kók á gólfinu!

Svo er það Eurovision. Ég ætlaði ekki að trúa því hvað ég hef ólíkar skoðanir og fólkið í þættinum hjá Páli Óskari á laugardagskvöldum. Ég er búin að hlusta mikið á lögin á You Tube og hef komist að því að eftirfarandi lög komast áfram í okkar riðli í þessari röð:

Ísland - nema hvað!
Sviss - Era Stupendo - lag að mínu skapi. Sætur strákur að syngja fallegt lag. Spekingarnir sögðu það vera væmið!
Lettland - sjóræningjarnir - mjög flott lag og grípandi.
Búlgaría - flott lag sem á eftir að gera mikla lukku á diskótekunum í sumar. Lítið sungið, hip hop.
F.Y.R. Macedonia - Austur-Evrópubragur. Mjög gott lag.
Ungverjaland - Candlelight - rólegt og fallegt lag.
Svíþjóð - mér finnst það ekki sérstakt en það kemst áfram af því að þetta er Charlotte og hún er svo æðisleg! Eða þannig... Hún fær stig af því að þetta er hún.

Þetta eru bara sjö lög en mér finnst hin lögin bara ekkert sérstök. Það er það sem er svo skemmtilegt við Eurovision. Þetta er líka mín skoðun. Þín skoðun er allt önnur. Ég veit það.

Best að fara að gera eitthvað. Uppfæra heimasíðu dóttur minnar eða eitthvað skemmtilegt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband