Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Ég fékk vinnuna :)
21.4.2008 | 16:43
Ég fékk vinnuna. Verslunarstjórinn hringdi í mig áðan og bauð mér vinnu og ég þáði hana auðvitað.
Ég fer að vinna í versluninni Toys'R'us á Glerártorgi. Ég verð deildarstjóri. Ég verð í 75% vinnu. Vinnutíminn er breytilegur, 10-16 og 12-18:30. Svo er vinna aðra hvora helgi. Þær helgar sem ég er í fríi fæ ég þriggja daga frí.
Ég þarf að fara suður í starfsþjálfun og flýg suður á miðvikudaginn. Verslunarstjórinn sækir okkur og við tékkum okkur inn á hótel. Gisting, flug og uppihald er innifalið. Ég þarf ekkert að punga út fyrir flugi eða gistingu. Ég er svo spennt fyrir þessu.
Ég er samt ennþá að ná þessu. Ég alveg hló og þurrkaði tárin þegar ég fékk símtalið. Ég trúði þessu ekki! En þetta er raunveruleiki og núna fæ ég að fara suður og læra inn á starfið.
Við komum svo heim miðvikudaginn 30 apríl eða föstudaginn 2 maí, það fer eftir því hversu dugleg við verðum að ná þessu. Þá tekur við strembinn tími, eða að koma upp eitt stykki verslun sem er 500fm og galtóm! Við stillum upp búðinni, röðum vörunum í hillur og skreytum. Það er alls konar dúllerí sem þarf að setja upp. Ég veit ekki alveg hvernig þetta verður, en ég veit að við opnum 22 maí á Glerártorgi. Sama dag og Íslendingar taka þátt í Eurovision.
Ég er í skýjunum yfir þessu og trúi þessu varla. Ég þarf smá tíma til að ná þessu. En ég er mjög ánægð. Alveg geggjað!
Sæl að sinni.
Togga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
This is my life
21.4.2008 | 09:11
Ég er svo stressuð yfir vinnuviðtalinu á föstudag. Ég finn fyrir miklu óöryggi. Viðtalið gekk vel, það gekk svo vel að ég fór til foreldra minna og vina og sagði frá því hvað það gekk vel. En viðtalið var ekki "fullkomið". Ég svaraði öllum spurningum og fann að við vorum sammála um marga hluti. En mér finnst ég hafa verið of áköf og frosið þegar ég var beðin um að lýsa sjálfri mér.
Ég er að finna þessa tilfinningu að ég get ekki breytt þessu. Svona stendur þetta og ég stend og fell með því. Ég á að fá þessa vinnu, ég er hæf fyrir þessa vinnu. Þetta gengur vel. Ég er samt stressuð yfir útkomunni.
Til þess að stytta mér stundir ætla ég núna að hlusta á lagið "This is my life" því það er frábært. Það kemur mér í gott skap. Á svona stundu þegar biðin er löng og ég fer að efast um eigið ágæti geri ég ýmislegt til að halda jafnvægi og gleðjast. Það er til dæmis að hlusta á Eurovision lögin, Sálina hans Jóns míns og svo finn ég alltaf sápur til að horfa á í sjónvarpinu. Ég er þegar búin að fara út að hjóla með stelpuna á leikskólann.
Ég bíð spennt eftir hringingu frá versluninni og ef ég á að fá þessa vinnu þá fæ ég hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þrælfínt hjá ykkur!
18.4.2008 | 08:45
Fyndnasta og skemmtilegasta Eurovision myndbandið " | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bogi Pétursson er látinn
17.4.2008 | 21:23
Bogi Pétursson er látinn, 83 ára að aldri. Hann hafði barist við Parkison í fjölda ára og síðasta föstudag var hann fluttur af Dvalarheimilinu Hlíð á FSA. Hann var með sýkingu í lungum og mjög öran hjartslátt. Hann var mjög veikur inni á Gjörgæslu um helgina, en á sunnudaginn gat hann stigið aðeins framúr. Honum hrakaði svo aftur á mánudaginn og er nú látinn.
Blessuð sé minning Boga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vinnuviðtal á morgun :)
17.4.2008 | 08:59
Ég fer í vinnuviðtal á morgun og hlakka mikið til. Ég vil ekki gefa upp eins og er hvaða starf þetta er. En ég hef trú á því að ég fái þessa vinnu. Þetta er mjög spennandi.
Mamma eldaði handa okkur kjúklingarétt og gaf okkur köku í gærkvöldi. Það var æðislega gott og ég þakka aftur fyrir það. Mamma er snillingur í matar- og kökugerð.
Bogi er eins. Allavega núna. Það gæti breyst í dag.
Bless í bili.
Togga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt á fullu í vinnuleitinni
16.4.2008 | 09:51
Ég er búin að vera svo dugleg að sækja um vinnu að ég get tekið lífinu með ró næstu daga á meðan ég bíð eftir því að heyra frá vissum aðilum.
Elsku besta mamma mín á afmæli í dag og ég sendi henni mínar bestu afmæliskveðjur.
Bogi Pétursson er núna á sjúkrahúsi og ástandið lítur ekki vel út núna. Hann hresstist við á mánudaginn og fór aðeins fram úr rúminu. Hann er núna kominn á lyfjadeild, var á gjörgæslu, og tengdó fór til hans í gær og var heldur niðurdreginn eftir það. Bogi er ennþá með grímuna yfir andlitinu. Valgeir mágur kemur í dag til Akureyrar að afhenda íbúðina sína og ætlar þá að kíkja á hann. Ég er að hugsa um að fara með Valgeiri.
Ég er á fullu í kvenfélagsstörfum þessa dagana. Við sem erum í fjáröflunarnefnd og skemmtinefnd hittumst á mánudagskvöld og skipulögðum laugardaginn. Þá er aðalfundur Kvennafélaga í Eyjafirði. Það er líka fundur hjá Baldursbrá annað kvöld og ég fer á hann. Svo sjáum við um kaffi eftir messu á Sumardaginn fyrsta sem er í næstu viku og á Uppstigningardag sem er 1 maí. Ég hlakka til að taka þátt í þessu öllu saman. Það er reyndar spurning um að vinna annað hvort á Sumardaginn fyrsta eða 1 maí því að ég er að verða ansi dugleg í kvenfélaginu. Ég verð að setja mörk og láta ekki vaða yfir mig.
Svo líður mér vel. Það er farið að vora og sólin skín í dag á afmælinu hennar mömmu minnar. Það er gott að vera til. Ég fór í smá makeover um daginn og lét setja strípur í hárið og laga augabrúnirnar. Þetta er svo gott fyrir sálina og svo fékk ég hrós á tveimur stöðum sem ég sótti um vinnu. Mér var sagt að ég líti svo vel út og að það geisli af mér gosh maður!
Sæl að sinni.
Togga.
Bloggar | Breytt 17.4.2008 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skemmtileg saga :)
16.4.2008 | 09:42
Ég vakna og labba með dóttur mína á leikskólann. Kem heim og ákveð að fara í sund. Ég sé að ég get tekið strætó sem fer niður í bæ og svo beint upp á brekku. Flott, þá get ég tekið strætó í sund og svo aftur heim. Ég er að fara í viðtal hjá Capacent klukkan 11 og næ þessu flott. Ég fer í strætó og er kominn í sund um tuttugu mínútur yfir níu. Syndi 10 ferðir og leggst í heita pottinn í tíu mínútur. Nema hvað, klukkan er þá að verða tíu. Ég fer uppúr og klæði mig, mála og blæs hárið. Tek eftir því að klukkan er þá orðin hálfellefu. ÚPs! Viðtalið eftir hálftíma. Hvað nú??? Ég get svo sem tekið strætó niður í Glerárgötu þar sem viðtalið er. Nei, ég er í gallabuxum og rauðri peysu sem passar engan veginn í vinnuviðtal. Hvað geri ég?? Ég hringi á leigubíl. Ég tek leigubíl heim og skipti um föt og keyri niður í Glerárgötu. Negli viðtalið algjörlega.
Boðskapur sögunnar, það borgar sig ekki alltaf að taka strætó því það er tímaþjófur og ég hefði frekar átt að fara á bílnum í sund þó að bensínið sé orðið svona dýrt, því leigubíllinn kostaði mig 950 krónur!
Ha, ha, ha, ha, gott á mig!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ömurlegur dagur, eða hvað???
11.4.2008 | 09:17
Áður fyrr hefði ég skrifað "dagurinn var ömurlegur!"
Frekar segi ég núna, dagurinn nýttist ekki sem skyldi. Ég lagði mig þegar ég var búin að skutla dóttur minni á leikskólann og svaf til hádegis. Þá kom eiginmaðurinn heim og við borðuðum saman. Ég horfði svo á krúttlega mynd á Stöð 2 bíó sem heitir "Field of love" held ég með Kevin Costner og horfði svo á Nágranna á Stöð 2+. Þá var klukkan farinn að ganga þrjú og mér fannst dagurinn búinn. Ég setti samt upp andlit og fór og keypti í matinn. Þá var kominn tími til að sækja stelpuna. Mér líður illa yfir þessu og hef samviskubit. Núna sé ég hvað ég er farin að vera dugleg. Ég byrja daginn á þvi að draga frá gluggum, taka úr uppþvottavélinni, ganga frá leirtaui og ganga frá eftir morgunmat. Ég er mun virkari en ég hef verið. Það sem ég fann í dag kannski söknuður, eða ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég sem sagt saknaði þess í dag að vera dugleg. Ég hef eytt svo miklum tíma í að ná mér uppúr myrkrinu. Núna sé ég ljósið. Ég sé hvað það skiptir miklu máli að vera virk. Þó að það sé bara að draga frá gluggum, búa um rúmið og ganga frá leirtaui frá því í gær. Þetta eru sjálfsögð verk í hugum sumra, en hefur verið gríðarlega erfitt fyrir mig og fleiri sem eiga við einhverja geðröskun að stríða.
Ég er sátt við að fara að sofa því ég veit að morgundagurinn verður betri. Hann verður betri því ég vel að byrja hann á því að draga frá gluggunum. Þá birtir i íbúðinni og ég vakna. Ég vakna til lífsins og bíð spennt eftir deginum.
Það er gott að vera til :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Geðhjálp á Norðurlandi Eystra
11.4.2008 | 09:10
Ég fór á stofnfund Geðhjálpar á Norðurlandi eystra í gærkvöldi. Geðhjálp var sem sagt að opna deild í þessum landshluta, sem er sjöunda deildin á landinu.
Ég hef mikinn áhuga á því sem viðkemur geðheilsu. Ég hef reynslu af kvíðaröskun, fæðingarþunglyndi, átröskun og félagsfælni. Mig hefur langað að svipta mig lífi. Ég fékk hjálp og hún skiptir svo miklu máli. Ég hef heldur ekkert verið að fela minn sjúkdóm. Ég hef mætt fordómum í þjóðfélaginu og vil því gefa þessum sjúkdómi andlit. Ég hef geðröskun og ég hef farið í meðferð hjá sálfræðingi og hjá Dagdeild Geðdeildar FSA á Akureyri. Þetta hefur hjálpað mér gríðarlega mikið. Ég hef lært að ég er mikilvægur einstaklingur. Ég hef lært að ég má hafa eigin skoðanir og viðra þær. Þegar ég byrjaði á Dagdeild var ég dugleg við að afsaka sjálfa mig ef ég vogaði mér að segja mína skoðun á málinu. Ég hef lært að ég á fjölskyldu sem þykir vænt um mig og ég á að leita til þeirra þegar og ef mér líður illa. En ég á líka að tala við hana ef mér líður vel og gengur vel.
Það er svo gott að fara á svona fund og rifja upp hvað ég hef lært. Ég á nú líka fullt af efni sem ég get lesið um jákvæðni og von og fengið vísbendingar um hvernig á að lifa lífinu. Ég fór samt á fundinn því ég finn að það eflir mig að hitta starfsmenn geðhjálpar og ég hitti líka Kristján forstöðumann Dagdeildar, ég hitti geðsjúka og gamla notendur af Dagdeild. Þetta skiptir svo miklu máli. Ég get gefið þeim von og öfugt. Ég get jafnvel hjálpað einhverjum sem er að lesa þetta núna og sagt að mér hefur líka liðið svona illa, en, ég er mun betri í dag og lifi í jákvæðni. Ég lifi í Núinu. Ég þarf líka að hafa fyrir því. Þetta er mikil vinna á hverjum degi. Maður er svo fljótur að detta niður í neikvæðni, en ég er sterk og næ að hrinda þeim hugsunum í burtu. Stundum þarf ég aðstoð til þess, og leita þá til eiginmanns míns og móður minnar. Ég á líka fáar en góðar vinkonur sem eru alltaf tilbúnar til að spjalla. Ég eignaðist einmitt góða vinkonu á Dagdeild og við höldum sambandi. Sem betur fer. Hún hefur reynst mér ofboðslega vel og færi ég henni þakkir fyrir.
Ég lifi á Núinu. Ég kvíði fyrir breytingum en ég hef þann hæfileika að geta skrifað og ég skrifa mig oft út úr erfiðleikunum. Núna er ég í atvinnuleit og ég þarf langan tíma til að fara á næsta vinnustað til að sækja um. Ég veit að á meðan ég er að hafa mig af stað er einhver á undan mér á staðinn til að fá vinnuna. En þetta er barátta og ég veit að ég kemst í gegnum það. Ég held jafnvægi með því að hafa alltaf morgunverkin á hreinu, eins og að draga frá gluggum og búa um rúmið. Ég skúra tvisvar í viku, skipti íbúðinni í tvennt og þríf til dæmis allt parket á föstudögum sem er ca helmingurinn af íbúðinni. Þetta er föst rútína og það er það sem maður þarf. Ég fer líka í sund á þriðjudögum og fimmtudögum. Ég fer í búð á fimmtudögum og mánudögum. Ég fer alltaf á Punktinn á mánudögum eftir hádegi og sauma út.
Sjúkdómurinn virkar ekki þannig að maður fer í meðferð hjá sálfræðingi og svo er manni batnað. Sjúkdómurinn virkar þannig að ég fer í meðferð til að læra að standa á eigin fótum og svo tekur við vinna hjá sjálfri mér. Ég þarf að halda rútínu á hlutunum til að halda jafnvægi. Ég finn að þegar eitthvað bregður út af með svefn verð ég ómöguleg. Ég held betra jafnvægi með því að sofa reglulega. Ég tek lyf. Ég hef tekið lyf síðan ég greindist í nóvember 2006. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég hætti að taka lyf. Þau halda niðri einkennunum. Útivist skiptir miklu máli. Ég finn hvað mér líður vel þegar ég fer út að ganga eða leika með dóttur minni. Að fá ferskt loft og njóta umhverfisins, skoða fjöllin og himininn. Sjá hvað aðrir eru að gera, skoða flottu bílana eða flottu fötin sem fólkið er í eða bara að njóta augnabliksins. Skoða fegurðina í kringum sig. Hreyfing skiptir líka miklu máli.
Það er hreyfing og mataræði sem skiptir svo miklu máli og það er eitthvað sem vantar svolítið uppá hjá mér. Ég hreyfi mig af og til en átröskunin er enn til staðar og ég hef aldrei verið jafn þung og ég er núna.
En nóg í bili af þessu. Ég vildi vekja athygli á Geðhjálp og gefa sjúkdómnum andlit.
Það er hjálp við þessu og það er von. Ég vil gefa öðrum von. Ég trúi á von.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta kemur mér ekki við
4.4.2008 | 13:54
Ég var stödd í Apótekinu í Hagkaup í gærmorgun til að ná í lyf og á meðan ég bíð eftir því að þau eru tekin til heyri ég í starfsfólkinu kvarta undan því laununum sínum. Það heyrðist einna hæst í einni konunni sem hábölvaði og lét öllum illum látum. Hún fór afsíðis en það heyrðist samt í henni. Þegar önnur kona kom fram með lyfin mín og afgreiddi mig var hún svo utan við sig að hún þurfti að margspyrja mig hvort mig vantaði eitthvað fleira, en mig vantaði einmitt verkjatöflur og stíla og hún var heillengi að afgreiða mig því að hún ruglaðist alltaf. Það endaði með því að hún sussaði á hina konuna sem var ennþá að rífast og skammast yfir laununum sínum. Um leið og hún tók við greiðslu frá mér stökk hún sjálf afsíðis til hinnar konunnar og slóst í leikinn.
Þetta kom mér ekkert við en truflaði svo sannarlega konuna sem var að afgreiða mig. Fólk sem er í þjónustustörfum verður að passa upp á að svona uppákomur komi ekki aftur fyrir þegar það eru viðskiptavinir í búðinni eða apótekinu.
Annars verslaði ég líka í Hagkaup og þegar ég kom að kassa var einn kassi opinn og einn viðskiptavinur að bíða þar, en hin kassadaman var að fletta í gegnum blað, leit upp og sá mig og hélt áfram að skoða blaðið. Þetta á ekki að eiga sér stað, og það á ég að vita sem gamall starfsmaður þarna.
Ég fór í sund í Akureyrarlaug í eftir hádegið í gær og þegar ég kom uppúr fór ég í sturtu og þegar ég var búin í sturtunni fór ég og klæddi mig. Á meðan á því stóð kom annar starfsmaðurinn í kvennaklefanum inn og gargaði á hina að nú væri hún búin að hlaupa um allt, upp og niður og út og suður. Svo settust þær niður og fóru að tala um aukið álag og að yfirmaður þeirra gerði sér ekki grein fyrir álaginu sem væri á þeim og svo framvegis. Þetta heyrðist um allan búningsklefann. Svo þurfti ég að þrífa húðina mína og vaskurinn inni hjá þeim og þetta er vaskur sem allir mega nota. Ég gekk til þeirra og spurði hvort það væri í lagi að nota vaskinn og það var sko guðvelkomið. Nema hvað, á meðan ég var að þrífa andlitið tek ég eftir því að þær hætta að tala saman. Ég fann að ég var að trufla þær. Önnur þeirra stóð meira að segja upp og sagði mér að ég gæti málað mig fyrir framan spegilinn frammi og mér fannst hún vera að segja mér að koma mér í burtu. Ég sagðist bara vera að hreinsa húðina og að ég vissi að ég ætti að mála mig annars staðar. Ég var greinilega að trufla þær og finnst ósanngjarnt að ég ætti að þurfa að bíða frammi á meðan þær kláruðu að kvarta undan sínu vinnuumhverfi. Ég fór inn því það er minn réttur og ég notaði vaskinn að vild. Enda er það alveg guðvelkomið. Nema þegar starfsfólkið þarf að slúðra!
Elsku kæra starfsfólk, ekki láta það bitna á viðskiptavinunum ykkar þó að þið séuð ekki ánægð í vinnunni. Það kemur mér ekki við þó að launin hafi verið vitlaust reiknuð eða að það sé mikið álag í vinnunni. Ég vil kaupa af ykkur þjónustu og þið eruð til staðar fyrir mig en ekki öfugt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)